Tulipop eyjan

Tulipop eyjan

Tulipop er ævintýraeyja í miðju hafi sem stjórnað er af þremur tunglum. Hún varð til þegar töfraeldfjall gaus neðansjávar fyrir þúsundum ára. Hraunið sem kom í gosinu myndaði eyjuna sem þróaðist í þennan ótrúlega stað sem við köllum Tulipop.

Tulipop er full af fossum, harðgerðum fjöllum, hverum og gullnum söndum. Þar búa sex furðuverur sem eru jafn ólíkar og þær eru yndislegar. Þær eru Gloomy, Bubble, Fred, Miss Maddy, Mr. Tree og Mama Skully.

Tulipop er skemmtilegur og spennandi heimur þar sem ekkert er eins og það sýnist. Íbúar Tulipop virka sætir og krúttlegir en allir eru þeir gallaðir á sinn eigin hátt og kljást við mannleg vandamál. Þau eru óvenjuleg og skrítin fjölskylda.

Aðalpersónur Tulipop

Fred

Fred býr dýpst inni í Svartaskógi og er einfarinn í hópnum. Fred er með ríkt dýrseðli, er með afburða lyktarskyn, finnst gott að velta sér upp úr leðjupollum og nudda sér upp við trén – og kann enga mannasiði.

Miss Maddy

Miss Maddy er prímadonnan í Tulipop. Hún elskar bleikan, er ætíð vel til höfð (að minnsta kostir þegar aðrir sjá til), og finnst fátt skemmtilegra en að baka góða köku handa Bubble.

Gloomy

Gloomy er ævintýragjörn sveppastelpa sem býr í Svartaskógi við rætur eldfjallsins Kapow. Hún er sterk og hugrökk, elskar ráðgátur og prakkarastrik.

Bubble

Sveppastrákurinn Bubble býr í Blómsturdal, sólríkasta bletti Tulipop. Hann er andstæða systur sinnar Gloomy, er rólyndur og heimakær, og finnst ekkert betra en að drekka góðan tebolla í hengirúminu sínu.

Mr Tree

Mr Tree er einn elsti íbúi Tulipop. Hann er töfratré og getur breytt tárum í gimsteina. Mr Tree er góðhjartaður og vinir hans leita því oft til hans til að fá ráð – en gott er að hafa í huga að Mr Tree er ansi gleyminn og hefur alls ekki alltaf rétt fyrir sér.

Mama Skully

Mama Skully er langelst í Tulipop, en hún kom upp með eldgosinu sem myndaði eyjuna. Hún býr á Hauskúpuhæð með Mr. Tree og er handviss um að hún hafi verið ljóðskáld í fyrra lífi.